Hoppa yfir valmynd
3.6.2024
Vilja hraða rafvæðingu í flugsamgöngum

Vilja hraða rafvæðingu í flugsamgöngum

Framtíð orkuskipta og rafmagnsflugs var umræðuefnið þegar fulltrúar íslenskra stjórnvalda og hagsmunaaðila sátu vinnufund um rafmagnsflugvélaverkefnið NEA (Nordic Network for Electric Aviation) á dögunum. Á vettvangi NEA hafa Isavia, með dótturfélag sitt Isavia Innanlandsflugvelli í fararbroddi, Icelandair og rekstraraðilar annarra flugvalla og flugfélaga á Norðurlöndunum ásamt flugvélaframleiðendum tekið höndum saman um að hraða eftir fremsta megni orkuskiptum í flugi. Áherslan í samstarfinu er lögð á rafmagnsflug.

Á fundinum, þar sem verkefnið var kynnt, voru fulltrúar ráðuneyta, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, flugfélaga og hagaðila í flugrekstri. Staða verkefnisins var kynnt en það felur í sér að móta sameiginleg sýn, stefnu og aðgerðaráætlun fyrir rafvæðingu flugs á Norðurlöndunum. Á fundinum var rætt um stöðuna í þessum málaflokki hér á landi. Leitað var eftir stöðugreiningu aðila og innleggi frá helstu hagaðilum.

NEA verkefnið var sett af stað í október 2019 og hlaut styrk frá norrænu nýsköpunarstofnuninni Nordic Innovation. Á seinasta ári hlaut NEA áframhaldandi styrk vegna næsta áfanga verkefnisins sem gildir til ársins 2026. Norræna nýsköpunarstofnunin er undir Norrænu ráðherranefndinni og er úthlutun til verkefnis stærsta upphæð sem sjóðurinn hefur veitt.

Á vettvangi NEA 2.0 er verið að kortleggja hvaða breytingar þarf að gera á innviðum til að hægt verði að skipta yfir í rafmagnsflug milli Norðurlandanna og innan þeirra. Innan samstarfsvettvangsins hefur verið unnið að því að þróa viðskiptamódelið og meta hvaða kröfur þarf að gera í öryggismálum þegar kemur að rafmagnsflugi og þjónustu við rafmagnsflugvélar. Jafnframt er unnið að sameiginlegri stefnu og áherslum  Norðurlandanna á þessu sviði sem m.a. verður rætt á fundi innviðaráðherra landanna sem að fer fram í  Gautaborg í ágúst nk.

Isavia er aðili að verkefninu ásamt flugvallarrekendunum Avinor í Noregi, Finavia í Finnlandi, Swedavia í Svíþjóð og Kaupmannahafnarflugvelli. Ásamt Icelandair taka flugfélögin SAS og BRA í Svíþjóð þátt í verkefninu. Þá eru fyrirtæki sem leggja áherslu á orkuskipti og flugvélaframleiðendur þátttakendur í verkefninu. Þau eru Green Flyway, Elfly Group, Heart Aerospace og NISA (Nordic Initiative for Sustainable Aviation).

„Verkefni fundarins í dag var að fá upplýsingar frá hagaðilum um hver staðan væri í skiptum yfir í rafmagn í flugi á Íslandi,“ sagðir Maria Fiskerud sem leiðir verkefnið en hún starfar sem þróunarsérfræðingur hjá Heart Aerospace. „Það skiptir miklu fyrir okkur að upplýsa helstu hagaðila og stofnanir um stöðu verkefnisins en einnig er mikilvægt að stjórnvöld og stjórnkerfið séu meðvituð um möguleikana og það sem er handan við hornið í orkuskiptunum. Það skiptir miklu máli við fáum skýra áætlun í orkuskiptum frá ráðafólki í þeim löndum sem að verkefninu standa þannig að við vitum hvert er verið að stefna og helst innan hvaða tímaramma. Við höfum átt fundi annars staðar á Norðurlöndunum með fulltrúum ráðuneyta og hagaðilum til að kortleggja stöðuna. Ísland er lykilhlekkur í þessu verkefni og íslenska innanlandsflugvallakerfið getur orðið afskaplega gott tilraunaverkefni í skiptum yfir í flug  knúið af rafmagni.“

„Það var mikilvægt skref að ná að kynna verkefnið fyrir hagaðilum,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Það er rétt sem Maria Fiskerud segir að Ísland geti orðið vettvangur tilraunaverkefnis í orkuskiptunum. Það er stutt á milli áfangastaða í innanlandsflugi og einnig hægt að setja upp nýjar styttri leiðir til tilrauna.“

„Við getum notað hundrað prósent endurnýjanlegan orkugjafa í verkefnið hér á landi,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia. „Í flugi er leitin að bestu leiðinni í orkuskiptum eitt stærsta verkefnið og hjá okkur er áherslan fyrsta kastið á það að liðka fyrir orkuskiptum í innanlandsflugi. Hver framtíðin er varðandi langflug á eftir að koma í ljós.“

„Við höfum mikla trú á NEA verkefninu,“ segir Nina Egeli, nýsköpunarstjóri hjá Nordic Innovation, en hún sat vinnufund NEA verkefnisins í Reykjavík fyrr í vikunni. „Við lítum svo á að NEA leggi mikið af mörkum til að styrkja þá sýn að Norðurlöndin verði í fararbroddi í sjálfbærni og samþættingu árið 2030. Það skiptir miklu máli að liðka fyrir orkuskiptum af öllu tagi í samgöngum, sér í lagi í flugsamgöngum. Þetta verkefni er skýrt afmarkað og við bíðum spennt eftir niðurstöðum þess.“