Hoppa yfir valmynd
20.6.2023
Um 300 sumarstarfsmenn á Keflavíkurflugvelli

Um 300 sumarstarfsmenn á Keflavíkurflugvelli

Einn af skemmtilegustu fylgifiskum sumarsins er að fá sumarstarfsfólkið til okkar. Alls hafa 286 sumarstarfsmenn hafið störf hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli núna í ár. Sumir starfsmenn hafa verið hér hjá okkur áður yfir sumarið en aðrir eru að stíga sín fyrstu skref hjá Isavia. Fyrir sumarið 2023 auglýstum við 14 fjölbreytt störf, aðallega í flugvernd og farþegaþjónustu og alls bárust 1.132 umsóknir. Meðalaldur umsækjenda var ríflega 25 ár.

Eins og áður segir voru 286 ráðin í sumarstörf á Keflavíkurflugvelli hjá Isavia og voru um 40% þeirra konur og 60% karlar. Meðalaldur þeirra sem ráðin voru er tæplega 23 ár.

Sumarstarfsfólkið okkar hefur fjölbreyttan bakgrunn og menntun en meðal þeirra eru einstaklingar sem eru að læra sálfræði, verkfræði, jarðeðlisfræði, tölvunarfræði, hönnun, lögfræði og fleira.

Við hlökkum til að takast á við verkefni sumarsins með þessu frábæra fólki, sem mun leggja sig allt fram um að gera upplifun gesta flugvallarins sem ánægjulegasta.