Hoppa yfir valmynd
14.8.2023
Tæplega milljón farþega um Keflavíkurflugvöll í júlí

Tæplega milljón farþega um Keflavíkurflugvöll í júlí

Júlí mánuður var annasamur eins og við var að búast samkvæmt farþegaspá. Alls lögðu 980.264 farþegar leið sína um Keflavíkurflugvöll, sem er 15,0% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Flogið var til 79 áfangastaða og voru þeir vinsælustu Kaupmannahöfn, New York, París, London og Boston.

Met var slegið í brottförum Íslendinga í júlí mánuði en brottfarir voru 70.600 eða 8,2% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Hafa brottfarir Íslendinga ekki mælst svo hátt í júlí mánuði áður.

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll, samkvæmt talningu Ferðamálastofu, voru 275.291 í júlí. Um er að ræða annan stærsta júlí mánuð frá því mælingar hófust.

Flestar brottfarir voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða tæplega 114 þúsund talsins sem er 41,3% af heild allra brottfara erlendra farþega. Þjóðverjar voru í öðru sæti eða 22 þúsund talsins (8,0% af heild), Pólverjar í þriðja sæti (7,4% af heild), Frakkar í fjórða sæti (4,9% af heild) og Bretar í fimmta sæti (4,0% af heild).

Frá janúar-júlí hafa um 1,2 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll en það er 41,9% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.

Keflavíkurflugvöllur er einn af fáum flugvöllum heims sem hafa náð fullri endurheimt farþega eftir heimsfaraldur. Farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir að rúmlega 2,8 milljón farþegar fari um Keflavíkurflugvöll í júní, júlí og ágúst. Það eru um 400 þúsund fleiri farþegar en sömu mánuði árið 2019.