Hoppa yfir valmynd
14.5.2024
Snjallsjálfsalar og ný sælkeraverslun á Keflavíkurflugvelli

Snjallsjálfsalar og ný sælkeraverslun á Keflavíkurflugvelli

Snjall-sjálfsalar, sælkeraverslun sem býður upp á íslenskar veitingar og kræsingar og svokallaðar „grab’n go“ verslanir verða opnaðar á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári. Verslanirnar auka úrval veitinga í flugstöðinni, sérstaklega fyrir þá farþega sem eru á hraðferð um flugvöllinn.

SSP í Noregi, hluti af alþjóðlega fyrirtækinu SSP Group, átti hagkvæmasta tilboðið í útboðið í rekstri á verslununum. Fyrirtækið SSP sérhæfir sig í rekstri veitingastaða á flugvöllum og rekur yfir 2.600 slíka staði víða um heim. Fyrirtækið hefur rekið Jómfrúna og Elda á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við íslenskt veitingafólk frá árinu 2022 og hefur reksturinn gengið afar vel.

„Við hjá SSP höfum átt farsælt samstarf við Keflavíkurflugvöll og erum stolt og ánægð að fá að halda áfram að bjóða íslenskum og erlendum ferðalöngum upp á frábært úrval matar sem er hentugt að grípa með sér í nesti fyrir ferðalagið,“ segir Åste Haukvik, viðskiptaþróunarstjóri SSP á Norðurlöndum.

Útboðið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Við mat á tilboðunum sem bárust var horft til tveggja meginþátta, fjárhagslega hlutans og tæknilegrar útfærslu. Sérfræðiteymi eru á bak við hvorn matsflokk en meðal þess sem hefur áhrif á matið er vöruframboð, verðlagning og gæði, þjónusta við viðskiptavini, hönnun og útlit verslunar, sjálfbærni og markaðssetning.

Alls sóttu tólf aðilar útboðsgögnin og uppfylltu tveir aðilar hæfniskröfur útboðsins en á endanum var það SSP sem hafði betur í útboðinu. Sérstaklega var leitað eftir aðila sem býr yfir mikilli fagmennsku í rekstri og getur brugðist skjótt og vel við breytilegum aðstæðum þar sem flugvöllurinn er flókið rekstrarumhverfi.

„Við tökum á móti breiðum hópi gesta með mismunandi þarfir og viljum að úrval veitingastaða endurspegli það. Hjá SSP eru miklir sérfræðingar í flóknum veitingarekstri á flugvöllum en flugvöllurinn er í stöðugri þróun og eftir því sem gestum fjölgar verða þarfirnar fjölbreyttari. Með nýjum sjálfsölum og verslunum sem þjóna sérstaklega farþegum á hraðferð aukum við mjög úrval veitinga sem henta þessum hópi. Á sama tíma bætir sælkeraverslun sérstaklega úrvalið fyrir þá farþega sem eru að leita sér að góðgæti til að taka með heim úr ferðalaginu,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia.

SSP mun reka sitthvora Grab´n Go verslunina, aðra á 2. hæð í norðurbyggingu og hina á 1. hæð í suðurbyggingu flugvallarins. Einnig mun SSP reka snjallsjálfsala á sjö mismunandi stöðum í flugstöðinni ásamt sælkeraverslun við hliðina á Grab´n Go versluninni í norðurbyggingunni. Stefnt er að því að rekstur hefjist næsta vetur.

Um útboðsferli Isavia 

Isavia ber samkvæmt lögum að bjóða út verslunar- og veitingarými á Keflavíkurflugvelli í þeim tilvikum þar sem virði samnings fer yfir lögákveðnar viðmiðunarfjárhæðir. Útboðunum er ætlað að tryggja samkeppni sem verður til hagsbóta fyrir neytendur og rekstraraðila. Útboðin eru auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Isavia fylgir lögum og reglum um opinber innkaup. Útboð Isavia fyrir verslunar- og veitingartækifæri byggjast á grundvelli reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk eða þjónustu yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins.