Hoppa yfir valmynd
23.5.2024
Líflegasti vinnustaður landsins - 400 sumarstarfsfólk tekið til starfa

Líflegasti vinnustaður landsins - 400 sumarstarfsfólk tekið til starfa

Sumarráðningarnar hafa gengið vonum framar í ár, að sögn Brynjars Más Brynjólfssonar, mannauðsstjóra Isavia.

„Okkur bárust 1.377 umsóknir um sumarstörf og höfum ráðið 370 einstaklinga í sumarstörf. Meirihluti þessara aðila mun koma til starfa á Keflavíkurflugvelli, hjá Isavia og Fríhöfninni. Um 35% þessara einstaklinga hafa starfað hjá okkur áður,“ segir Brynjar.

Sumarstörfin eru fjölbreytt á Keflavíkurflugvelli.

„Stærstu ráðningarnar okkar eru í flugvernd, það er að segja í öryggisleit farþega, áhafna, starfsfólks og farangurs en í þær deildi ráðum við um 140 einstaklinga. Önnur störf sem við ráðum í eru t.d. farþegaþjónusta þar sem einstaklingar eru m.a. að stýra flæði farþega í brottfarasal og aðstoða PRM farþega, þá aðila sem þurfa aðstoð við að komast í gegnum flugstöðina út í flugvél vegna fötlunar eða annarra ástæðna. Allir sem hefja störf hjá félaginu þurfa að undirgangast bakgrunnsathugun lögreglu og ljúka viðeigandi þjálfun til að geta hafið störf á flugvellinum.“

Brynjar er mjög ánægður með það hvernig sumarið er að raðast upp hvað þetta varðar. „Þetta er mjög flottur hópur af fólki sem við erum að fá í sumar, bæði þau sem hafa unnið með okkur áður og þau sem eru að koma til okkar í fyrsta sinn.“