Hoppa yfir valmynd
12.11.2020
Isavia hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

Isavia hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

Isavia ohf. hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA (Félag kvenna í atvinnulífinu) árið 2020. Jafnvægisvogin er verkefni sem Isavia tekur þátt í ásamt FKA um að jafna hlutfall karla og kvenna í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja á Íslandi. Markmiðið er að árið 2027 verði kynjahlutfallið 40/60.

„ Við hjá Isavia þökkum innilega fyrir þann heiður sem okkur er sýndur með þessari viðurkenningu,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Isavia hefur lagt mikla áherslu á jafnréttismál síðustu árin og þessi viðurkenning sýnir að við erum á réttri leið. Við fengum jafnlaunavottun fyrir rúmum tveimur árum en þar áður fékk Isavia gullmerki jafnlaunaúttektar PwC. Því til viðbótar höfum við náð þeim árangri að hlutfall kvenna sem eru í framkvæmdastjórastöðum hjá Isavia og dótturfélögum þess hefur farið úr því að vera um 30% við stofnun félagsins árið 2010 í það að vera um 60% í dag.“

Sveinbjörn undirritaði á dögunum viljayfirlýsingu um þátttöku í Jafnvægisvoginni fyrir hönd Isavia. Tilgangur verkefnisins er margþættur.

  • Að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að hlutfallið í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi verið 40/60 árið 2027.
  • Að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.
  • Að veita viðurkenningar og draga fram í sviðsljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar.
  • Að standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis.
  • Að gera samantekt á og greina stöðu stjórnenda eftir kyni í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöðurnar.

Samstarf Isavia ohf. og FKA er til fimm ára og felur í sér að Isavia mun heita því að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar. Isavia mun leggja verkefninu lið í öflun á áreiðanlegum upplýsingum og taka þátt í könnunum til að komast betur að því hver staða mála er í þessum efnum. Þá mun félagið einnig taka þátt í einstökum viðburðum tengdum Jafnvægisvoginni.