Hoppa yfir valmynd
30.5.2022
Fyrsta flug easyJet milli Mílanó og Keflavíkur

Fyrsta flug easyJet milli Mílanó og Keflavíkur

Áætlunarflug breska flugfélagsins easyJet frá Mílanó til Keflavíkur hófst á laugardaginn. Félagið stefnir á að fljúga milli Mílanó og Keflavíkur þrisvar í viku þegar mest lætur. Bætist Mílanó við flug félagsins frá Keflavík til London, Manchester og Edinborgar. Farþegum var boðið upp á glaðning á leið um borð í vélina.

Þegar easyJet tilkynnti í apríl um ákvörðun sína að bæta Mílanó við áætlun sína sagði Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia að það væri ánægjulegt og skýrt merki um það hve vinsæll ferðamannastaður Ísland væri. 

Lorenzo Lagorio, svæðisstjóri easyJet á Ítalíu sagði að viðskiptavinum félagsins gæfist tækifæri til að uppgötva land í Norður-Evrópu sem hefði upp á einstaka náttúrufegurð að bjóða.

Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur snaraukist á síðustu vikum og nýbirt farþegaspá bendir til að endurheimtin í ár, eftir tveggja ára Covid-19 heimsfaraldur, verði nokkuð hraðari en áður var áætlað. Nýir áfangastaðir hafa bæst við hjá flugfélögum á síðustu vikum og má þar m.a. nefna Raleigh Durham í Bandaríkjunum hjá Icelandair og fyrstu flug Play til Lissabon og Prag.