Hoppa yfir valmynd
30.6.2020
EasyJet bætist í hóp flugfélaga sem fljúga til Íslands í júlí

EasyJet bætist í hóp flugfélaga sem fljúga til Íslands í júlí

Breska flugfélagið easyJet hefur ákveðið að hefja á ný flug til og frá Íslandi. Það bætist þar með í hóp með öðrum flugfélögum sem hafa þegar hafið flug til og frá Íslandi eða hafa tilkynnt um að flug muni hefjast í júlí.

Icelandair hefur flogið til Boston, London og Stokkhólms síðustu vikur en fjölgaði áfangastöðum þegar heilbrigðisyfirvöld hófu skimun fyrir Covid 19 á Keflavíkurflugvelli þann 15. júní síðastliðinn. Síðan þá hafa Air Greenland, Atlantic Airways, Czech Airlines, SAS, Transavia og Wizz air hafði flug til samtals 14 áfangastaða.

Í júlí bætir Wizz air við flugi til Mílanó, Norwegian og SAS hefja flug til Osló og Transavia til Nantes í Frakklandi. Þá mun Lufthansa hefja flug til Frankfurt tvisvar í viku og München einu sinni í viku. Air Baltic flýgur þrisvar í viku til Riga í Lettlandi og Austrian einu sinni í viku til Vínarborgar.

Nú síðast tilkynnti easyJet ákvörðun sína að hefja flug til London Luton þann 1. júlí næstkomandi. Fyrst um sinn verður flogið þangað fimm sinnum í viku en síðar er áformað að auka tíðni í sex ferðir í viku. Félagið hefur á síðustu árum haldið uppi reglubundnu flugi um Keflavíkurflugvöll til fjölda áfangastaða á Bretlandseyjum og í Sviss.

„Við hjá Isavia fögnum þeirri ákvörðun easyJet að bætast í hóp þeirra flugfélaga sem hafa nú þegar boðað komu sína á ný,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Félagið hefur verið einn af stærstu viðskiptavinum okkar til fjölmargra ára og eitt af lykilflugfélögunum þegar kemur að vetrarferðamennsku. Það er gott að vita af því að félagið hefur nú bæst í hóp þeirra flugfélaga sem sett hafa stefnuna á Ísland.“

Isavia hefur upplýst öll flugfélög, sem leitað hafa upplýsinga um stöðu mála á Íslandi og hvernig baráttan við Covid 19 hefur gengið. Félögin hafa fengið að vita hvernig skimun á Keflavíkurflugvelli er háttað, um þær fjöldatakmarkanir sem eru í gildi vegna skimunarinnar og um gjaldtökuna sem hefst þann 1. júlí. Mörg flugfélaganna sem hafa verið í sambandi við Isavia hafa lýst áhyggjum af gjaldtöku vegna skimunar, þar sem hún muni hafa áhrif á eftirspurn eftir ferðum til Íslands.