Hoppa yfir valmynd
26.3.2021
Delta eykur framboð á flugi til og frá Bandaríkjunum

Delta eykur framboð á flugi til og frá Bandaríkjunum

Bandaríska flugfélagið Delta hefur tilkynnt um áform sín að fljúga til Íslands frá þremur áfangastöðum í sumar. Auk Minneapolis og New York er Boston bætt við sem nýjum áfangastað. Flugið hefst í maí.

„Þessi ákvörðun Delta er gleðitíðindi og staðfesting á því sem við höfum áður sagt að mikill áhugi sé á Íslandi sem áfangastað þegar heimsfaraldri Covid-19 sleppir,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Sú ákvörðun Delta að bæta við nýjum áfangastað sýnir að félagið hefur trú á Íslandi. Farþegar þess vilji njóta náttúru landsins og opinnar víðáttu eftir heimsfaraldurinn.“

Ef áætlun Delta er skoðuð vekur athygli að Ísland er í hópi með evrópskum borgum á borð við London, París, Róm, Frankfurt og Dublin þar sem boðið er upp á þrjá eða fleiri áfangastaði í Bandaríkjunum.

Flogið verður í fyrstu ferð til Boston samkvæmt þessari nýju áætlun 20. maí og til Minneapolis/St. Paul þann 27. maí. Delta mun fljúga á þessa þrjá áfangastaði daglega.